Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 


Þakklæti til sálar

 

13. apríl 2015

Það eru nú liðnir nokkrir mánuðir síðan móðir mín kvaddi þetta jarðlíf og fór yfir í andlega heiminn. Þó að það sé þetta langt um liðið þá hef ég ekki náð að stíga þau skref fyrr en núna að fara yfir það líf sem við áttum saman.  Móðir mín var yndisleg manneskja og hefði ég ekki viljað eiga aðra móður í þessari jarðvist, þrátt fyrir að okkur greindi stundum á í málum sem við höfðum báðar ástríðu fyrir en það var í því sem við getum kallað að sjá út fyrir formið.  Við sáum hlutina hvor á sinn hátt og vorum nánast aldrei sammála þegar kom að því að ræða um aðrar víddir og heima og þar á meðal fannst henni mjög erfitt að kyngja þeirri staðföstu vissum minni frá barnsaldri að við ættum fleiri en eitt líf.

Í núverandi lífi lék móðir mín það hlutverk að vera í mótstöðu við það sem mér hefur þótt vænst um og hefur hjálpað mér mest í lífinu en það er að hafa farið út á þá braut að læra heilun og nota hana bæði fyrir mig sjálfa og aðra. Hún taldi að allt sem tengdist þeirri iðju væri ekki af hinu góða. Þá taldi hún líka að við ættum ekki að vera að hafa samband við þá framliðnu, eða þá sem væru farnir yfir í andlega heiminn.

Hún trúði þó ætíð á það góða í fólki og var mjög góð manneskja sem vildi öllum vel þó hún væri ekki öllum sammála. Hún hafði mikinn trúarstyrk og ég man ekki eftir henni öðruvísi en að hún hafi haft óbilandi traust á Guði og bæninni. Þegar umskiptin höfðu átt sér stað bjuggust því eflaust margir við því í fjölskyldunni að við myndum fá að sjá einhvers konar tákn um þennan trúarstyrk annað hvort í kirkjunni, við jarðaförina, eða á himnum og það brást ekki. Því þrátt fyrir alskýjaðan himinn allan jarðarfarardaginn þá gerðist sá ótrúlegi atburður seint í nóvember í Stykkishólmi þar sem sólin nær varla upp fyrir fjallgarðinn á þessum tíma að sólin braust í gegnum skýjaþykknið og skein skært á móti okkur um leið og kirkjudyrnar opnuðust að lokinni jarðarför, á meðan kistan var borin út í bíl og þar til allir kirkjugestir höfðu komist út undir bert loft. "Já þetta er amma heyrðist þá í barnabörnunum hennar."

Þó að hún væri orðin háöldruð og örugglega búin að hafa góðan tíma til að undirbúa brottförina úr þessum heimi þá kom það mér samt á óvart hversu fljótlega hún fór að sinna hjálparstörfum hinu megin. Hún virtist strax vera orðin mjög virk, því það leið varla nema vika eða 10 dagar þegar vinkona hennar fór einnig yfir en þá var móðir mín komin í það hlutverk að stýra undirbúning fyrir komu hennar hinu megin. Hún sem var ekkert fyrir það að stjórna verkum í jarðvistinni var farin að stjórna því hvernig veislan átti að vera og hverjir gerðu hvað til þess að móttöku athöfnin væri sem fallegust og best. Annað sem kom mér á óvart var að hún kom fram í draumi hjá systur minni þar sem hún hafði hringt en þar sem sambandið var bæði lélegt og slitrótt, þá sagði hún að „ÞEIR“ væru að laga það.

Mig hefur ekki dreymt einn einast draum um móður mína síðan hún fór yfir en hún hefur aftur á móti komið mjög sterklega að heilunarstörfum með mér, þá hef ég fundið vel fyrir henni. Núna á dögunum kom upp atvik þar sem ég byrjaði að skoða okkar samskipti að meiri krafti en áður, sumt er jú sárt að fara í gegnum en þegar maður hefur farið í gegnum það þá byrja minningar um þakklæti að skína sterkt í gegn. Það vakti samt undrun mína að um helgina þá hafði ég mjög sterka tilfinningu fyrir því að hún ætlaði að fara að hringja í mig, svo sterk var tilfinningin að ég hefði ekki orðið hissa þó síminn hefði hringt. Ég hugsaði með mér, já en það er ekki fræðilegur möguleiki að hún geti hringt í mig.  Það sem aftur á móti gerðist var að ég ákvað að skreppa í sjoppuna og lotta en þar hitti ég frænku mína úr móðurfjölskyldunni sem sagði mér frá því að móðurfólkið mitt væri að hittast einu sinni í mánuði á ákveðnum stað á ákveðnum tíma og ef ég vildi vera með þá væri ég velkomin í hópinn. Á því augnabliki skildi ég af hverju ég hafði svona sterka tilfinningu fyrir hringingunni. Ástæðan fyrir þessu er eflaust sú að ég var búin að setja það út fyrir einhverjum mánuðum að mig langaði til þess að kynnast móðurfólkinu mínu betur þar sem tengslin við þau virðast hafa slitnað, eða ekki verið til staðar af einhverjum ástæðum.

Það sem kom mér enn og aftur á óvart með móður mína var hvernig hún leit út og hvernig hún var í orkunni þegar hún birtist í símahugleiðingunum. Ég sá að hún var komin með líkama eins og 25 ára kona, útlitið minnir þó meira á gyðju heldur en konu og hún er allt önnur manneskja heldur en hún var í jarðlífinu. Hún er laus við allar þær takmarkandi þungu byrgðar sem hún bar frá því að ég man eftir mér. Það er mikill léttleiki og ákveðni í henni en þó á blíðan og mildan hátt. Það virðist eiga mjög vel við hana að vera í þeim hjálparstörfum sem hún er komin í núna. Hún er algjörlega laus við alla fordóma og ásakanir og það er nánast eins og að hitta aðra manneskju en þó er þetta orkan hennar sem ég þekki svo vel. Það er þó allt öðruvísi að hitta hana núna en í jarðvistar líkamanum. Þegar ég sá þetta þá eiginlega féllust mér hendur og ég sagði bara með sjálfri mér, hvernig nenntir þú elskulega kona að taka að þér það hlutverk sem þú tókst að þér í jarðlífinu fyrst að þú ert svona allt öðruvísi þegar þú ert sú sem þú raunverulega ert.   

Eftir að hafa orðið þess aðnjótandi að fá að sjá þetta með þessum hætti, sjá hvernig við tökum að okkur ákveðin hlutverk í lífinu algjörlega gjörólík því sem við raunverulega erum þá hef ég fengið algjörlega nýja sýn á lífið. Það hefur komið upp þakklæti, þakklæti hjartans fyrir að hafa átt svona móður, að hafa fengið að vera með þessari stórkostlegu sál í jarðvist. Það hefur líka komið upp þakklæti fyrir að eiga hana núna að í andlega heiminum þar sem ég veit að ég get treyst á stuðning hennar hundrað og fimmtíu prósent sem bandamann og hjálpanda og fyrir að sýna mér hvernig hlutverkaleikritið í jarðlífinu er í raun og veru.

 

Efst á síðu

Ýmislegt

Heim