Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 Að halda hjartanu opnu

 

5. janúar 2013

Það getur verið mikil áskorun fyrir þá sem búa einir, eiga ekki dýr, börn, eða eru ekki í vinnu sem nærir hjartað að halda hjartanu opnu. Þegar við erum umvafinn ástvinum okkar, börnum, barnabörnum, mökum, vinum, vinnufélögum, eða eigum dýr þá er þetta svo miklu auðveldara.

Til þess að finna og viðhalda ástarneistanum í hjartanu þá þurfum við að finna að við elskum einhvern og að við erum elskuð, það getur verið fjölskyldumeðlimir, vinir, vinnufélagar, þeir sem við umgöngumst náið eða hittum tilviljanakennt, dýr eða eitthvað í náttúrunni sem við finnum til ástar til.

Það að læra að elska sjálfan sig og finna til ástar til sín er eitt það erfiðasta sem við tökumst á í lífinu. Flestir vita að það er erfitt að finna til ástar til sjálfra sín jafnvel þótt þeir séu í sambandi við annan aðila og það getur jafnvel verið enn erfiðara þegar manneskja er ekki í nánu sambandi við annan aðila. Stundum er eina leiðin til að læra að elska sjálfan sig að búa ein/einn um tíma til að læra að meta og elska sinn eigin félagsskap. Það getur verið mikil áskorun að hlaupa ekki í samband við einhvern þegar leiðin og einmanakenndin sækir á, að fara ekki að sækjast eftir því að önnur manneskja uppfylli löngun okkar eftir ást.

Það góða við það að búa ein/einn er að þá er hægt er að skoða það með sjálfum sér hvað það er sem verið er að leita eftir í nánu sambandi við annan aðila. Hvar liggur löngunin, hvernig sjáum við fyrir okkur nærandi samband? Hvað er verið að leita eftir með ástinni, hvernig viljum við vera elskuð, hvað er að vera elskuð? Af hverju við sækjumst eftir því að önnur manneskja elski okkur og við elskum hana? Er eitthvað sem annar aðili getur gefið okkur sem við getum ekki gefið okkur sjálf?

Þegar við erum ein þá stöndum við frammi fyrir því að við verðum að finna ást innra með okkur á einhvern þann hátt sem gerir það að verkum að við náum að opna hjartað og elska. Það þarf að finna einhvern farveg til þess að opna fyrir flæði ástar hið innra, til þess að finna að við erum elskuð og að við elskum vegna þess að ástin er sú lífæð sem heldur okkur gangandi.

Ástin er það sem veitir okkur gleði, ástin er það sem veitir okkur frelsistilfinningu, ástin er það sem hvetur okkur áfram til aðgerða, ástin er það sem tengir okkur saman við aðrar manneskjur, dýr eða náttúru, ástin er það sem gefur lífi okkar tilgang. Ef við finnum ekki fyrir ástinni innra með okkur til okkar sjálfra, eða einhvers annars, þá getum við verið að upplifa algjört tilgangsleysi með lífinu. Sá lífsneisti sem keyrir okkur áfram er ástin. Ef við höldum að engin elski okkur og við finnum ekki til ástar til okkar sjálfra og við eigum ekki dýr til þess að elska og elskar okkur þá smám saman fölnum við og visnum eins og blóm sem fær ekki næringu.

Við þurfum á ástinni að halda til þess að efla lífskraftinn hið innra og ef við erum í þeirri aðstöðu að við búum ein og erum ekki með neinn, eða neitt í umhverfinu sem getur hjálpað okkur í sambandi við að opna hjartað þá verðum við að finna leiðir til þess. Það er hægt að finna allskyns lausnir á því, fólk sem er t.d. mikið eitt getur fundið til ástar með því að fara út og hitta annað fólk, eða t.d. að hitta fólk á göngu sem á dýr, horfa á dýralífsmyndir í tölvunni, eða í sjónvarpinu, eða horfa á ljósmyndir af ungviðinu, börnum eða dýrum.

Það er svo auðvelt að sjá ástina í augunum á dýrunum á ljósmyndum eða í lifandi myndum þau sýna ástina svo sterkt sérstaklega gagnvart afkvæmum sínum. Dýrin eru m.a. komin til þess að hjálpa okkur við að sjá þetta. Þegar við eigum dýr þá eru þau oft okkar bestu og helstu trúnaðarvinir og félagar, engin elskar okkur eins óskilyrt og tryggur heimilishundur, köttur, kanína eða önnur dýr. Það er þó ekki alltaf sem við eigum möguleika á því að eiga dýr þannig að þá eru ljósmyndir, eða dýralífsmyndir næst besti kosturinn vegna þess að við getum lesið þá ást sem við þráum að finna fyrir í hjartanu í augunum á dýrunum, sérstaklega ef þau eru í móðurhlutverkinu og beina sjónum að afkvæmum sínum.
Þá er líka hægt að finna til ástar í náttúrunni það eitt að ganga úti í náttúrunni og finna ástina til alls sem þar er að sjá og skynja getur opnað hjartað á auga bragði.


Efst á síðu

Ýmislegt

Heim