Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

 

Lífsspegill



7. ágúst 2014

Á hverjum degi verð ég meðvitaðri um það hvernig fólkið sem ég umgengst er eins og lífsspegill fyrir mig, ytri speglun á því sem ég geymi innra með mér. Stundum er ég tilbúin að skoða það, stundum ekki. Oft eru þetta djúpt grafin atriði sem ég hef litla hugmynd um að búi innra með mér. Ég kann ekki alltaf að setja þau í orð, en ég finn þau og veit ekki alveg hvernig ég á að höndla þau eða hvað ég á að gera við þau. En þegar ég er tilbúin að sjá hvað þetta er, þá er það eins og að lesa bók, bók sem gefur mér dýrmætar upplýsingar um mig sjálfa.

Með hverjum deginum sem líður verð ég líka þakklátari fyrir þá sem koma til mín í heilun. Þeir eru oft eins og lyklar að mínu eigin innra landslagi. Þau spegla það sem býr innra með mér. Stundum eru minningar að koma úr fyrri lífum og ég sé hvað ég er tilbúin að sleppa og leysa upp úr sálarminninu. Ég veit að í hvert skipti sem einhver kemur í heilun, þá er það vegna þess að ég sjálf er að vinna með samskonar orku. Sálirnar dragast saman til að leysa þessa orku út saman þó að við séum ekki meðvituð um það fyrir fram. Þetta er orkulegt samspil sálna.

Stundum er þetta svo augljóst að ég tek andköf af undrun, fólk lýsir aðstæðum sem gætu eins verið kafli úr minni eigin sögu. Það er eins og ég sjálf sé að tala. Þetta dásamlega samspil í samskiptum okkar mannanna getur hjálpað okkur að vaxa og skilja okkur sjálf á ótrúlega hraðan og djúpan hátt ef við hlustum. Og þá meina ég virkilega hlustum. Heyrum hvað sagt er, veltum því fyrir okkur og skoðum hvernig það tengist okkur sjálfum og okkar lífi. Þegar einhver kemur í heilun veit ég að það sem losnar í þeim, losnar líka í mér.

Sama á við um skrifin mín. Ég er svo þakklát fyrir að hafa byrjað að skrifa um tilfinningar á sínum tíma og hvernig það veitir mér innsýn og uppljómun. Í hvert sinn sem ég set eitthvað á blað fæ ég nýjan skilning, ný svör, nýja sýn. Ég fæ að sjá bakvið blekkinguna sem tengist atburðum eða tilfinningum úr fortíðinni. Ég fæ að upplifa hvernig allt sem gerist í lífinu, hvernig hvert orð, sérhver samskipti hafa tilgang. Stundum þurfa aðrir að gefa okkur spark í rassinn. Við höfum líklega óskað eftir því sjálf sérstaklega ef við höfum ekki hlustað á leiðbeinendur okkar. Þá hvísla þeir skilaboðunum í eyra þeirra sem heyra betur og eru í okkar návist til að hjálpa okkur að fara aftur inn á leið sálarinnar.

Leiðbeinendur okkar gera sitt besta til að leiða okkur áfram eftir þeirri áætlun sem sálin setti saman áður en við fæddumst eins konar verkferli lífsins. Ef við myndum alltaf fylgja þessum leiðbeiningum væri jarðlífið auðveldara og við kláruðum verkefnin hraðar. En þegar við þráumst við förum eftir vilja persónunnar eða, það sem er enn verra, eftir því sem aðrir segja okkur að sé rétt þá flækist ferlið.

Ég er sífellt þakklátari fyrir allar speglanirnar sem lífið býður mér í gegnum annað fólk, hvernig þær hjálpa mér smám saman að sjá mig sjálfa, jafnvel það sem ég hef ekki viljað sjá eða heyra áður. Og svo, skyndilega, verð ég tilbúin og fæ alveg nýja sýn á sjálfa mig og lífið. Þessi leikur að spegla sig í annarra orku er nánast orðinn að skemmtilegu ævintýri fyrir mig. Spennan eykst í hvert skipti sem ég uppgötva eitthvað nýtt um sjálfa mig sem ég hafði ekki séð áður.

Ég hef líka gert mér grein fyrir því í þessu ferli að það er ekki nóg að hafa hæfileika ef ég er á flótta og er hrædd við að viðurkenna þá. Aftur á móti ef ég leyfi þeim að opnast og virkjast þá streymir stöðugt eitthvað nýtt til mín sem leiðir mig á vit nýrra ævintýra.

 

 

 

 

 

 

 

Efst á síðu

Ýmislegt

Heim

 

© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir joninath@viskaoggledi.is