Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

 

Leikrit lífsins

16. ágúst 2009

Þið eruð yndislegar sálir og við elskum ykkur öll, hvort sem þið eruð á andlegri braut eða ekki. Hvert og eitt ykkar er einstakt. Þið hafið öll ykkar eigið hlutverk í leikriti lífsins.

Þið spyrjið oft: „Til hvers er ég komin hingað?“

Verið bara velkomin í skóla lífsins, því þetta er sannarlega skóli, fullur af lexíum. Leikrit með margvíslegum hlutverkum.

Hver og einn hefur sitt hlutverk. Enginn er skilinn út undan. Allir fá að vera með.
Þið völduð sjálf ykkar hlutverk áður en þið fæddust á jörðina. Þið ákváðuð hvað þið vilduð verða þegar þið yrðuð stór, hvernig búningarnir og umgjörðin yrði.

En hver er svo leikstjórinn? Það eruð þið sjálf.
Þið ráðið ykkar eigin leikriti. Þið sjáið algjörlega um að velja það hverjir eru í leikritinu með ykkur.

Þið veljið umhverfið og fólkið í kringum ykkur. Þið getið alltaf breytt um umhverfi og leikarana sem eru í ykkar nánasta hring.

Stundum klárast ein sena og þá þurfið þið að velja nýtt fólk, nýtt umhverfi með nýjum efnivið til að vinna úr.

Þið eruð einstök.

Þið eruð elskuð.

Ykkur er hjálpað af svo mörgum sem starfa í okkar vídd. Þið eruð aldrei ein.
Nei aldeilis ekki. Þið hafið heilan hóp af hjálpendum sem fylgjast með ykkur, hjálpa ykkur að standa upp þegar þið hafið hrasað aftur og aftur. Lífið er endurtekning, æ ofan í æ.

En stundum eruð þið svo upptekin af því hvernig öðrum gengur í þeirra hlutverkum að þið gleymið ykkar eigin. Þið eruð komin hingað til að leika ykkar hlutverk.

Þið getið haft svo gaman í lífinu með hvort öðru. Þið getið notið hverrar stundar lífsins og þannig er það hjá mörgum.

Aðrir velja að dvelja í drama ef ekki sínu eigin þá helst í drama annarra. Sumir skapa drama ef það er ekki fyrir hendi. Það er þeirra val. Eins og allt sem þið gerið.

Þið veljið ykkur lífsförunauta í takt við þann menningarheim, uppeldi og umhverfi sem þið komið úr.

Þið leitið oft eftir maka sem hefur sömu eiginleika og annað foreldri ykkar og þá oft af gangstæðu kyni.

Stundum viljið þið ekki lengur taka þátt í leikritinu ykkar. Og það er líka allt í lagi.

Enginn er dæmdur fyrir að vilja stíga út. Enginn er skikkaður til að halda áfram.
Stundum reynist hlutverkið sem þið völduð ykkur of erfitt og þið viljið losna undan því. Það er enginn sem dæmir ykkur fyrir það.

En þið völduð þetta hlutverk og lexíurnar sem því fylgja. Þær bíða ykkar hvort sem þið klárið þær núna eða síðar, eða í öðru lífi með öðru fólki.

Það verður aðeins öðruvísi leikrit en eigi að síður sömu lexíur. Þið komist ekki undan því að læra lexíurnar ykkar þegar þið hafið sett ykkur að þið ætlið að læra þær.

Þið eruð jafn elskuð hvort sem þið ákveðið að fara og hætta í leikritinu og taka upp þráðinn seinna eða þið þraukið í því og klárið það til enda.

Þið sjáið ekki í gegnum hlutverkin fyrr en þið hafið hækkað tíðnina. Þá sjáið þið að allt hefur tilgang.

Þið sjáið lífið sem framhald af því sem var, þið skiptið um líkama milli lífa, en haldið áfram með söguna, leikritið. Stundum með sama fólkinu. Ef eitthvað kláraðist ekki síðast, kemur framhaldið í næsta lífi.

Þeir sem skoða fyrri líf sjá þessa mynstur, hvernig lífin eru stöðug endurtekning. Það er ekki fyrr en ákveðið er að breyta til sem endurtekningin hættir.

Þið eruð svo dásamlega skemmtileg þegar þið eruð í þessum leikritum, þó ykkur finnist það ekki alltaf sjálfum.

Stundum elskið þið hlutverkið.

Stundum finnst ykkur það skelfilega erfitt.

Þið mættuð stundum horfa aðeins lengra og sjá samhengið í hlutunum.

Skoða ykkur í spegli, ekki í venjulegum spegli. Heldur þeim sem þið hafið beint fyrir framan ykkur, fólkið sem þið umgangist. Hvað er það að spegla fyrir ykkur?

Mörgum finnst samskiptin við foreldra erfið sérstaklega við móður.

En hvað er það sem móðir ykkar er að kenna ykkur? Hvað hafið þið tekið með ykkur inn í lífið frá henni, er það kannski það sem þið fordæmið mest?

Elskið móður ykkar af öllu hjarta. Þakkið henni fyrir lexíurnar sem hún kenndi ykkur.
Þið eruð hluti af henni. Þið völduð hana til að kenna ykkur eitthvað.

Það er ekkert sem er af því bara.

Það sama á við um föður ykkar. Hann er ekki tilviljun. Hann var valinn af kostgæfni af ykkur sjálfum til að kenna ykkur ákveðnar lexíur.

Það er sama hversu mikið hann fer í taugarnar á ykkur eða þið elskið hann þið völduð hann sem ykkar líffræðilega föður.

Þið verðið stundum hissa þegar þið komið yfir. Hvernig lífinu á jörðinni er háttað að þið eigið ekki orð yfir að hafa ekki séð í gegnum þetta.

Þið sjáið hvernig þið voruð föst í hlutverki án þess að átta ykkur á tilganginum.

Þið voru jú, ekki áhorfendur af ykkur sjálfum sem þið ættuð þó að vera. Þið gleymduð að taka eftir eigin hlutverki af því þið voruð að fylgjast með hlutverkum annarra.

Þið eruð ykkar eigin meistarar og ættuð því að vera meðvituð um það hvernig þið getið stjórnað þeim þætti sem snýr að ykkur í leikritinu.

Þið eruð öll svo elskuð og dáð og við erum áhorfendur að þessu leikriti ykkar.

Við vildum svo gjarnan geta hjálpað ykkur meira en við gerum en það er ekki hægt að taka fram fyrir hendurnar á ykkur því þá væri lexían ekki lærð.

Þið eruð dásamlegar verur. Reynið að sjá ykkur þannig.

Ykkar stærsta lexía er að elska ykkur sjálf alveg eins og þið eruð.

Elskið allt sem þið gerið og allt sem þið gerið ekki.

Elskið ykkur sjálf algjörlega og fullkomlega. Þið eruð allrar elsku verð.

Þið eruð yndislegar sálir.

Ef þið væruð að horfa á aðra manneskju eða barn í skóla fara í gegnum allt sem þið hafið gengið í gegnum mynduð þið ekki elska það og dást að því?

Af hverju ekki að horfa þannig á ykkur sjálf?

Þið eruð þetta barn. Þið eruð í skóla lífsins og hann er ekki auðveldur.

En þið eruð að vinna ykkur í gegnum hann skref fyrir skref.

Þessi texti kom í gegnum skrifin mín árið 2009 og ég ákvað að leyfa honum að koma hérna á síðuna núna þar sem boðskapur hans er alltaf í gildi.

 

 

Efst á síðu

 

Ýmislegt

Heim

 

 

 

© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir hafa samband