Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

 

Hvernig ég skynja Guð

12. mars 2009

Ég ætla að skrifa um það út frá minni reynslu hvernig ég upplifði þá orku sem við köllum Guð.

Ég hef í raun alla tíð trúað því að til væri orka sem væri eitthvað meira og stærra heldur en við skynjum í daglegu lífi. Ég vissi að þrátt fyrir að vita ekki almennilega hvernig ég átti að skilgreina þessa orku eða hvernig hún virkaði, þá var hún samt til staðar. Það væri hægt að nálgast hana á öllum tímum sólarhringsins, þó að ég yrði ekki beint vör við hana var samt gott að geta vitað af því að það var hægt að tala við einhvern sem skildi mig fullkomlega og ég þurfti ekki að skammast mín fyrir neitt gangvart henni vegna þess að hún vissi allt um mig.

Ég sé ekki að Guð sé staddur á sama stað og tunglið, það er að segja í himingeimnum, hann er engin geimkall eins og sumir vilja kalla hann. Orkan er svo miklu meira en það, hún er allt í öllu, líka í okkur mannfólkinu, hið innra og hið ytra. Við erum umkringd þessari orku hvern einasta dag, við lifum og hrærumst í henni, við drögum hana að okkur með hverjum andardrætti. Við öndum henni inn í líkamann í gegnum orkustöðvarnar og því meiri athygli sem við gefum henni því sterkara finnum við fyrir henni.

Það að finna þessa orku sterkt er að vera í algjörri kærleiksvitund það er að elska allt og alla, allt sem er hér á þessari jörð og langt út fyrir það. Þegar við tengjumst orkunni sem við köllum Guð þá finnum við til kærleika til allra og þá meina ég allra, þá sjáum við engan sem óvin heldur eru allir jarðarbúar stórir og smáir yndislegar sálir á leið sinni til andlegs þroska. Það er sú tilfinning sem ég hef skynjað þegar ég hef virkilega náð tengingu við þessa orku. Það veraldlega verður allt í einu svo óumræðilega lítils virði, það skiptir ekki lengur máli hvort maður á hús eða farartæki, vegna þess að maður getur gengið allt sem maður ætlar á tveimur jafnfljótum og húsnæði verður aukaatriði. Tilfinningin er sú að maður hefur allt sem þarf hverju sinni.

Tengingin við þessa orku færir mann nær því að skilja tilganginn með lífi sínu og þegar sá skilningur rennur upp í vitundinn þá verður lífið svo miklu auðveldara, þannig verður ekkert mál að framkvæma hluti sem áður virtust óyfirstíganlegir.

Eftir að ég fór að opna orkustöðvarnar með virkri öndun það er að segja að nota öndun til þess að fara inn í orkustöðvarnar, eins og þær séu nokkurs konar nef, þá hef ég skilið þessa orku miklu betur. Orkuna sem ég og fleiri köllum Guð eða alheimsorkuna er í raun hægt að anda inn í hvað orkustöð sem er, en hæsta tíðnin næst með því að anda henni inn um höfuðstöðina. Í gegnum höfuðstöðina er hægt að anda orkunni inn í allan líkamann. Ef maður finnur sársauka einhver staðar í líkamanum þá er hægt að anda þessari hvítu tæru heilandi orku sem allir eiga ótakmarkaðan aðgang að, inn í sársaukann og sársaukinn mildast eða hverfur. Þessi orka er ótrúlega mögnuð en það þarf að vinna markvisst að því að tengjast henni, vita að hún er þarna og finna hvernig hún flæðir.

Best leiðin til þess að ná árangri er að byrja að anda með neðstu orkustöðinni og fikra sig upp og enda á höfuðstöðinni. Tíðni orkustöðvanna hækkar eftir því sem ofar dregur, rótarstöðin hefur lægstu tíðnina. Með góðri jarðtengingu er hægt að ná hærri orkutíðni inn í efstu orkustöðina.

Ég sat út í hrauni í Bláfjöllum að hugleiða þegar ég skynjaði orku Guðs í fyrsta skiptið, mér fannst sem ég sæi hann líka sem veru, með innri sjón. Ég hafði verið dugleg að anda inn um orkustöðvarnar þegar þetta var, þar sem ég hafði verið að senda fjarheilun marga daga í röð.

Ég andaði inn um orkustöðvarnar hverja af annari, byrjaði neðst og endaði á höfuðstöðinni. Ég hafði andaði í góða stund þegar ég byrja að skynja þessa hvítu orku mjög sterkt, hún var nánast áþreifanleg. Ég byrjaði líka að sjá (með þriðja auganu) risastóran engil eða veru með vængi, ég varð ekkert lítið hissa og segi: "Ha, Guð ertu með vængi?" Um leið og ég hafði sleppt orðinu, (hugsuninni), "vængi" þá hurfu vængirnir og veran segir hlæjandi "hvernig viltu hafa mig." Ég varð nú eiginlega hálf hissa á þessu en skildi þá að við getum auðvitað við séð Guð hvernig sem við viljum hafa hann, ef hann er með vængi í okkar huga þá birtist hann með vængi, ef við sjáum hann sem karlkyns þá birtist hann þannig, ef við sjáum hann sem kvenkyns þá birtist hann þannig.

Guð er orka en hann getur breytt þessari orku í þá mynd sem við viljum sjá hann, eða í þá mynd sem hann vill sýna okkur. Orkan sem ég fann þarna og var eiginlega áþreifanleg hafði mikil áhrif á mig. Ég hélt áfram að anda þessari orku inn í allan líkamann dágóða stund og varð algjörlega eitt með henni. Allur sársauki hvarf úr líkamanum, hvort sem hann var tilfinningalegur eða líkamalegur, ég fann hvernig allt er hér og nú, lífið er bara núið.

Eftir þessa upplifun í Bláfjöllum leið mér einstaklega vel í að minnsta kosti tvo daga á eftir, ég fann hvernig ég gat haldið áfram að andað með öllum líkamanum, ég fann hvergi til. Dagana þarna á eftir gat andað að mér og skynjað orku fjalla, trjáa, steina og bara alls umhverfisins. Ég var með heilun fyrir nokkra á meðan ég var í þessu vellíðunar ástandi og þá fann ég líka að það eru allir svona, það anda allir með orkustöðvunum, en við erum bara ekki meðvituð um það.

Það er hægt að anda að sér orku fjalla, jökla, trjáa, orkusteina, sjávarins og bara hverju því sem okkur dettur í hug að anda að okkur í hverja orkustöð eða inn í allan líkamann í gegnum höfuðstöðina. Það er líka þannig að um leið og við hugsum eitthvað þá er það á staðnum, maður þarf að vera mjög meðvitaður um það hvað hugurinn er að gera. Það er ekki gott að fara að hugsa neikvæðar hugsanir, um pólitík, neikvæðar fréttir eða einhver leiðindi þá erum við að draga það inn í orkuna okkar. Það er reyndar alltaf þannig, en þegar maður hefur víkkað orkusviðið þá verður maður miklu viðkvæmari fyrir því neikvæða.

Ef við erum að senda öðrum heilun eða ljós, á staðnum eða í fjarheilun þá erum við að senda þá orku sem við tengjum okkur við til annarra. Þó að orka fjalla, steina, jökla, blóma og hvera sé mjög sterk þá er orkan sem við köllum Guð samt sú öflugast og mest heilandi af öllu því sem við getum andað að okkur og sent sem ljós. Best er auðvitað að gera æfingar á hverjum degi til þess að tengjast þessari orku eða einhverri annarri orku s.s. engla, meistara, höfrunga eða hvað það er sem við viljum skynja. Það er að segja ef við viljum kynnast einhverri orku með skynjuninni. Æfa okkur í því að anda meðvitað, með því að stýra því hvaða orku við viljum draga inn og hvað við viljum gera með þá orku.


 

Efst á síðu

Ýmislegt

Heim

 

 

© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir hafa samband