|
Upprifjun úr heimavistaskólanum
Gengið í svefni
Ég man eftir atviki sem gerðist eina nóttina hjá okkur herbergisfélögunum. Við vöknuðum upp við það að ein stelpan í herberginu okkar gekk í svefni. Einhver hefur eflaust vaknað fyrst og vakið hinar. Við vorum svo hræddar við þessa sem gekk í svefni, við vorum auðvitað bara lítil stýri, sennilega níu eða tíu ára.
Ég man að ein stelpan sagði að það mætti alls ekki segja nafn þess sem gengi í svefni, því þá yrði hún sturluð. Við vorum búnar að hrúgast saman í eitt hornið í annarri neðri kojunni og héldum dauðahaldi hvor í aðra. Eitthvað hefur nú verið af óhljóðum með þessu, því við vorum í innsta herberginu á vistinni. Allt í einu stendur skólastjórafrúin í dyrunum.
Hún var nú ekki beint blíð á manninn yfir þessum hávaða í okkur og spurði með þjósti hvað gengi eiginlega á, af hverju við værum með svona læti. Hún hefur eflaust séð það um leið og hún opnaði hurðina, um hvað málið snérist. Hún tók undir hendina á stelpunni sem gekk í svefni, leiddi hana að rúminu sínu og lét hana leggjast. Ég skil eiginlega ekki hversu fast þessi herbergisfélagi okkar svaf, því hún virtist ekki vakna við þetta.
Frúin sagði okkur hinum síðan að fara að sofa og hætta þessum hávaða, punktur. Málið var afgreitt, ekki rætt meira og við fórum að sofa. Við vorum þó enn jafn óvissar um hvað hafði gerst, en þorðum ekki að láta mikið í okkur heyra eftir þetta.
Ekki veit ég af hverju við vorum svona hræddar við þennan svefngengil það var eins og hún hefði breyst í draug bara við það að standa upp úr rúminu og ganga um. Við sögðum henni þetta auðvitað daginn eftir, sem þýddi að nokkrum dögum seinna ákvað hún að stríða okkur svolítið með þessu. Þá þóttist hún vera að ganga í svefni. Við sáum þó fljótlega í gegnum það, því hún hegðaði sér á allt annan hátt en hún hafði gert í hitt skiptið.
Við pössuðum okkur auðvitað á að vera ekki með eins mikla skræki í þetta sinn, svo frúin myndi ekki birtast aftur í dyrunum.
JG
Efst á síðu
Ýmislegt
Heim
© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir hafa samband
|
|