Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

 

Fyrstu skóladagarnir

Gríman sett upp

Ég virðist hafa verið harður nagli að minnsta kosti á ytra borðinu. Ég man ekki eftir að hafa grátið við brottförina, komuna í skólann eða þegar ég vissi að pabbi var farinn.

Satt að segja vissi ég ekkert út í hvað ég var að fara. Enginn hafði sagt mér að skólinn væri fjögurra hæða risa bygginga ferlíki í mínum augum. Þar átti ég að dvelja næst tvær vikurnar ásamt 48 öðrum börnum í misjafnlega góðu jafnvægi. Þar var ekkert eftirlit með því hvernig við höguðum okkur hvert við annað.

Þegar ég fer aftur inn í tilfinninguna sem ég hafði sem sjö ára barn á þessum tímapunkti, þá var ég gríðarlega hrædd nánast stjörf. Óttinn nagaði mig inn að beini. Hendurnar og fæturnir titruðu, hjartað hamaðist í brjóstinu. En ég lét ekki á neinu bera. Gríman var komin upp: ég ætlaði að vera í skólanum, hvað sem það kostaði.

Skólahúsnæðið

Húsið var, eins og áður sagði, risastórt miðað við það sem ég þekkti. Ég hafði aldrei áður stigið inn í svona stórt hús. Mig minnir að pabbi hafi komið með mér ásamt skólastjóranum upp á herbergið mitt. Þar deildi ég rými með þremur öðrum stelpum. Við sváfum í kojum tvær í efri og tvær í neðri.

Vistirnar voru tvískiptar: stelpurnar á þriðju hæðinni og strákarnir á annarri hæð. Á jarðhæðinni voru skólastofurnar, matsalurinn, eldhúsið, setustofan, bókasafnið, kennarastofurnar og anddyri sem var nokkuð rúmgott. Þar áttum við að vera í frímínútum á milli kennslustunda.

Á neðstu hæðinni var þvottahús, leikfimisalur sem ég man varla eftir að hafi verið notaður geymslur, kyndiklefi og útgangur sem við krakkarnir notuðum.

Þrátt fyrir kvíðahnútinn fannst mér þetta að vissu leyti spennandi. En auðvitað var engin undankomuleið – engin leið til baka.

Heimþráin

Það skipti engu máli hversu mikið krakkarnir grétu úr heimþrá. Ég man ekki eftir því að fullorðnir hafi nokkurn tímann huggað þau. Ég sá það allavega aldrei. Flestir grétu í einrúmi eða leituðu huggunar hjá eldri skólafélögum.

Þau sem grétu opinberlega fengu oft stimpilinn grenjuskjóður frá þeim sem náðu að harka af sér. Enginn vildi láta kalla sig grenjuskjóðu. Það þýddi heldur ekkert að ætla sér að strjúka. Þegar maður var kominn á staðinn var engin smuga. Hvort sem okkur líkaði betur eða verr, þá urðum við að dúsa þarna hálfan mánuð í senn.

Mér datt það reyndar aldrei í hug að reyna flótta. Ég vissi hversu löng leiðin var heim. Það tók tvær klukkustundir að keyra í bíl á þessum tíma, og sitt hvoru megin við skólann voru straumharðar ár. Fyrst hefði þurft að labba langan afleggjara að þjóðveginum, og jafnvel þá hefði maður líklega verið keyrður beint aftur í skólann ef einhver stoppaði.

Ég hugsaði ekki út í það en ég gæti trúað að margir, sem áttu styttra heim, hafi velt þessum möguleika fyrir sér.

Matseðillinn

Þegar ég kom þarna í fyrsta skiptið man ég ekki hvort okkur var sýndur allur skólinn, en eflaust hefur það verið, því einhvern veginn lærði ég að rata um þessar vistarverur. Þegar ég fór fyrstu skiptin í matsalinn til að borða kom enn eitt sjokkið: þarna var matur á borðum sem ég var ekki vön að borða. Þetta var hræðilegt til að byrja með mér fannst eins og það væri hrossakjöt í matinn daginn út og daginn inn. Saltað, steikt, hrossabjúgur, hrossagúllas, hrossa hangikjöt og ég veit ekki hvað. Það er eiginlega stórundarlegt að maður hafi ekki farið að hneggja á endanum.

Matseðillinn var þannig að í hádeginu á mánudögum var hrossasaltkjöt með kartöflum og hvítri sósu. Þetta var það fyrsta sem var á matseðlinum fyrsta skóladaginn minn og mikið sjokk. Saltkjötsbitarnir voru svo harðir að varla var hægt að skera þá fyrir svona litlar hendur, hvað þá að tyggja þá. Ég kunni auðvitað ekkert í fyrstu að velja mýkri bita sem voru auðveldari undir tönn. Mig minnir að það hafi líka verið grautur til að bæta upp fyrir „herlegheitin“, það er að segja hrossakjötið.

Kvöldmaturinn var yfirleitt skárri, því þá var oftar fiskur á borðum sem betur fer, því það var eitthvað sem ég þekkti að heiman. Hann var þó ekki nema tvisvar í viku. Þar á milli man ég ekki alveg hvað var í boði, en sennilega fiskibollur einu sinni í viku.

Á þriðjudögum voru kjötbollur með kartöflum og brúnni sósu. Grænmeti þekktist ekki í þá daga, nema kartöflur og rófur. Kjötbollurnar þóttu mjög góðar og voru meðal vinsælustu réttanna á matseðlinum.

Á miðvikudögum var saltkjöt og baunir það hlýtur eiginlega að hafa verið lambakjöt en ekki hross. Á fimmtudögum var gúllas, aftur úr hrossinu góða, núna með kartöflustöppu og brúnni sósu. Föstudagurinn hefur runnið mér úr minni hvort þar hafi verið enn ein útgáfa af hrossakjöti, man ég ekki lengur.

Á laugardögum var saltfiskur og grjónagrautur. Ég hafði aldrei áður smakkað saltfisk og fannst hann vondur, enda var hann sjaldan eða aldrei á mínu æskuheimili. Ég tel mig þó ekki hafa verið matvanda, en þetta var einum of mikið af því „góða“. Grjónagrauturinn þótti mér líka vondur, þrátt fyrir að hann væri nánast á hverjum degi heima. Þar var þó fiskur og grautur borinn fram fimm eða sex sinnum í viku miklu hollara fæði en allt þetta saltaða og reykta kjöt. Ég borðaði því ekki hádegismatinn á laugardögum. Kvöldmaturinn var aftur á móti hangibjúga með hvítri sósu og kartöflum, sem voru allt í lagi hvort sem þær voru úr hrossi eða ekki.

Á sunnudögum fylltist skólinn af ilmandi hangikjötslykt. Ég man hvað mig hlakkaði til en svo kom í ljós að þetta var að sjálfsögðu ekki venjulegt hangikjöt, heldur hross. Það voru engin smá vonbrigði en maður vandist því eins og öðru. Mér þótti hrossahangikjöt aldrei gott, og finnst ekki ennþá. Hins vegar saknaði ég hrossagúllassins eftir að skólavistinni lauk. Það er reyndar það eina sem ég saknaði af matseðlinum. Ég reyndi nokkrum sinnum að elda þennan rétt sjálf, en fannst mér aldrei takast að ná því góða bragði sem var af réttinum.

Hafragrautur var fastur liður á morgnana. Mér þótti hann alls ekki góður sérstaklega ekki af því að um leið og hann var ausinn í skálina var lýsispillu hent ofan í. Hún smitaði allt út frá sér og ég man enn lyktina. Það sem bjargaði mér og fleirum á seinni árum var að alltaf var borið fram ósýrt kalt slátur, bæði blóðmör og lifrarpylsa. Þegar við höfðum lært að borða blóðmörinn með kaldri mjólk var morgunmatnum bjargað. Við stöfluðum jafnvel lifrarpylsunni á disk og fórum svo í eldhúsið að sækja meiri blóðmör, því öllum þótti hann betri.

Matsalurinn

Borðunum í matsalnum var raðað í lengjur, þrjú borð saman, þannig að tólf krakkar sátu við hvert borð stundum einhverjir á endunum líka. Við skiptumst á að vera þjónar, með því að bera fram matinn, sækja meira ef eitthvað vantaði, þurrka af borðunum eftir matinn og vaska upp. Strákarnir reyndu margir að komast undan þessum verkum og létu sig oft hverfa þegar kom að uppvaskinu. Það var eiginlega ótrúlegt hvað þeir komust upp með þar sem fáir nenntu að klaga eða elta þá upp á herbergi til að ná í þá aftur.

Borðfélagarnir voru að mig minnir herbergisfélagarnir. Hverju herbergi var ætlað ákveðið borð í matsalnum. Ég man ekki eftir því að við hefðum nokkurn tímann getað valið hvar við sátum, frekar en að velja herbergi. Stundum var þó leyft að skipta um herbergi og herbergisfélaga.

 

Efst á síðu

Ýmislegt

Heim

 

 

 

© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir hafa samband