Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

 

 

 

Fallega sálin


Hvað varð um litlu fallegu sólin/sálina, sem guð sendi út í heiminn sem neista af sjálfum sér? Fallega sálin sem var bara kærleikur/ást, fór af stað með lítinn bakpoka, til að upplifa lífið á jörðinni. Hún var svo falleg, svo kærleiksrík og námsfús að læra og lifa í efnisgerðum líkama í jarðarskólanum. Hvað varð um hana? Hvað varð um mig, þig og okkur öll? Hvað breyttist? Hvernig gátum við hætt að muna að við erum kærleikur, hreinn kærleikur sem er komin af Guði? Af hverju fórum við að hugsa allt út frá efnislega líkamanum og halda að við værum hann, að það væri efnið sem skipti öllu máli? Hvert fór vitneskja okkar um guðdómleika okkar?

Þegar við fórum í ferðalagið höfðum við hástemdar áætlanir um það hvernig samskiptum okkar yrði háttað. Við höfðum óendanlegan kærleika til hvors annars og vitneskju um að við værum að færa hvort öðru himneskar gjafir með nærveru og samskiptum.

Hvað gerðist? Sálarkúlurnar voru í upphafi bara hreinn kærleikur, hrein ást vegna þess að þær eru komnar úr/af kjarna ástar sem er bara hreinn kærleikur. Varla leiddist guði, og bjó þess vegna til tilfinningar, allskonar tilfinningar til þess að kærleiks neistarnir hans gætu upplifað allskonar og orðið þannig þroskaðar tilfinningaverur.

Tilfinningar eru ótal margar í jarðarskólanum, ef við hugsum okkur að við værum eins og litlu saklausu börnin sem eru að byrja í skólanum, í stað þess að læra að lesa, skrifa og reikna þá lærum við um margskonar tilfinningar. Hvernig eigi að takast á við að leysa úr þeim, sjá í gegnum þær og elska aðra þrátt fyrir þær. Alveg eins og litlu börnin sem eru í skólanum á jörðinni verða færari að lesa, skrifa og reikna þá verðum við færari í því að takast á við tilfinningar. Við lærum um allskonar tilfinningar og við lærum að hugsa fram og til baka um tilfinningar. Þá gerist það stundum að við náum ekki að slíta okkur frá tilfinningum og við höldum fast í þær og hugur og tilfinningar vinna saman í því að halda þeim föstum.

Þannig gerist það að það myndast hringrás, við yfirgefum eitt lífið eftir annað og alltaf hleðst á þessar tilfinningar. Það kemur inn fólk sem við sömdum við áður en við fæðumst sem á að ýta ákveðið á takkana sem geyma okkar viðkæmustu tilfinningarnar, til þess að við getum vitað hverjar þær eru og leyst þær upp. Hvernig ættum við annars að vita að þær eru þarna, hafa verið þarna lengi og það er alltaf að bætast ofan á þær af því við höfum ekki séð þær fyrr.

Hvernig eigum við svo að muna að á bakvið allar þessar tilfinningar að þarna inni í þessum líkama og að stórum hluta utan við hann er lítill (stór) sálarneisti kominn frá guði, tengdur guði, kærleiksneisti sem vill okkur aðeins það besta og vill að við munum tilfinninguna sem leynist í hnappinum okkar viðkvæma vegna þess að það leysir okkur úr álögum tilfinninga og huga. Hvernig eigum við líka að vita að við sjálf erum líka kærleiksneisti sem hefur ákveðið að hjálpa öðrum kærleiksneista að uppræta og horfast í augu við viðkvæmar tilfinningar sem varla má minnast á, hvað þá taka fram og skoða. Hvernig í ósköpunum eigum við að muna þetta allt í gegnum alla þá áherslu sem lagt er í að við séum sem uppteknust af því efnislega, því að vera það veraldlega í þessum heimi, að næra tilfinningar með efni. Fallega sál, hvernig getur þú munað hversu mikil ást þín er?

Efst á síðu

Ýmislegt

Heim

 

 

© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir hafa samband