Heim
Viska
Heilun
Meistarar
Englar
Gleði
Hugleiðslur
Draumar
Um mig

 

 

Einmanaleikinn

 

21. desember 2012

Þegar við erum að losa út orku sem tengist einmanaleika þá getum við fundið að það tengist framheilanum, bæði hægra og vinstra megin. Ef við förum inn í einmanatilfinninguna sem margir finna svo sterkt fyrir á þessum tíma þá getum við fundið að orkan tengist m.a. inn á framheilasvæðið, hjartastöðina, sólarplexus og rótarstöðina. Af einhverjum ástæðum virðast blokkeringarnar sem tengjast einmanaleika að mestu leyti vera staðsettar í framheilanum og niður að gagnaugum, en það er á þessu svæði sem þyngslin verða mest áberandi þegar við erum í þessari tilfinningu.

Tilfinning um einmanaleika þarf ekki að tengjast því að við séum ein, hún getur birst í hvaða aðstæðum sem við erum í. Við getum verið á meðal fjölskyldu og vina, við getum verið á fjölmennum vinnustað, við getum verið meðal fjölda fólks en samt fundið til einmanaleika. Einmanaleiki er tilfinning sem er innra með okkur og hefur í raun ekkert með annað fólk að gera þó við höldum það stundum. Ef við höfum þessa tilfinningu mjög sterkt innra með okkur þá breytist hún ekki þegar við erum innan um annað fólk vegna þess að þetta snýst um okkur sjálf en ekki aðra, eða ytri aðstæður.

Okkur getur líka liðið afskaplega vel með það að vera ein með sjálfum okkur án þess að finna nokkurn tíman til einmanakenndar og það er þá vegna þess að þessi tilfinning er ekki uppi í yfirborðsorkunni á þeim tíma. Sumir eru meira að segja alltaf einir og finna aldrei þessa tilfinningu. Aðrir hafa þessa orku mjög sterka í undirvitundinni en það er þá tilkomið vegna þess að þeir eiga mörg gömul líf þar sem þeir hafa þróað þessa tilfinningu innra með sér án þess að ná að leysa hana út, eða komast að því hvaðan hún kom í upphafi. Til þess að minna sig á þessa einmanatilfinningu, til þess að geta horfst í augu við hana og losað hana út, velja þessir einstaklingar oft að upplifa einmanaleikann með því að vera einir, t.d. búa einir, með því að reyna að loka sig frá samskiptum við annað fólk nema nauðsyn beri til og þess háttar.

Þegar við erum einmana þá getum við spurt okkur sjálf, hvaðan þessi einmanaleiki er komin og hvort það myndi breyta tilfinningunni ef það væri fleira fólk í kringum okkur. Við getum sest í uppáhaldsstólinn okkar og séð fyrir okkur að við séum stödd á meðal annars fólks, fjölskyldu, vina, ættingja, vinnufélaga, eða innan um fólk sem við þekkjum ekki neitt. Ef það breytir líðaninni þá ættum við kannski að sækjast eftir þeim félagsskap sem við finnum að myndi veita okkur næringu, en ef þessi sýn breytir engu þá er þessi tilfinning einungis innra með okkur sjálfum og þá er gott að skoða hvaða hún á rætur sínar að rekja til þess að geta losað hana út vegna þess að oft tengist hún ákveðnum atburðum, eða kringumstæðum.

Ef við finnum aldrei til einmanaleika og finnum aldrei til þess að okkur leiðist, hvort sem við erum ein, eða með öðru fólki þá erum við alveg laus við þessa tilfinningu. Við finnum flest fyrir einmanaleika ef við erum vön að vera umkringd fullt af fólki sem við þekkjum en þurfum svo allt í einu að standa frammi fyrir því að vera ein. Ef við erum einmana af því að við erum ein og okkur leiðist og okkur langar til að hitta annað fólk en eigum ekki möguleika á því þá stundina, þá getur það verið vegna þess að við höfum ákveðið að takast á við þessa tilfinningu innra með okkur.

Það getur verið að við þurfum að vera ein einhversstaðar í einn dag, margar vikur, mánuði, eða ár til þess að horfast í augu við þessa tilfinningu. Margir upplifa þennan einmanaleika þegar þeir flytja til útlanda og þurfa að takast á við viðskilnað frá fjölskyldu, vinum og ættingjum og þurfa að kynnast nýjum aðstæðum, nýju fólki, nýjum vinnustað, eða skóla.

Það getur tekið tíma að aðlagast og einmanleikinn sækir oft á þegar staðið er frammi fyrir þessum aðstæðum og stundum stendur sú einmanatilfinning yfir í mörg ár ef viðkomandi kýs að halda áfram þó hann, eða hún sé að takast á við þessa tilfinningu upp á hvern dag. Það hefur þó orðið miklu auðveldara að halda uppi samskiptum við sitt fólk þó að tekin sé ákvörðun um að flytja til annarra landa með þeirri tækni sem við búum við í nútímanum þó að það sé aldrei eins og að vera í sínu upprunalegu umhverfi með sínu fólki.

Við getum valið okkur svo margar leiðir til þess að horfast í augu við tilfinninguna um einmanaleikann, stundum erum við nánast ófær um að mynda tengsli við annað fólk þegar við erum á nýjum stað og við förum að einangrast en allt er það ferli sem sálin hefur valið sér til þess að vinna bug á þeirri tilfinningu að hún sé raunverulega einmana, vegna þess að tilfinningin um einmanaleika er innra með okkur en snýst ekki um aðra einstaklinga.

Efst á síðu

Ýmislegt

Heim