|
Minningarbrot æskunnar
Leiðin í skólann
Hún er sjö ára og á leið í skólann í fyrsta sinn í svokallaðan vorskóla. Það var kallað vorskóli vegna þess að hann var aðeins haldinn á vorin fyrir yngstu börnin. Hún situr í Land Rovernum með pabba sínum og fleiri börnum úr sveitinni. Þau þurfa að fara yfir fjallveg til að komast í skólann og ferðin tók um tvo klukkutíma.
Allir eru með ferðatöskur og poka, því þau eiga að sofa í skólanum. Hún hafði kannski séð þessi börn áður, en þekkti þau ekki neitt þau voru líka eldri en hún. Pabbi hennar reykti pípu og hún sat alveg við hliðina á honum í miðjusætinu. Það var lítið talað á leiðinni; hann var ekki vanur að spjalla mikið við börn.
Hún hafði hlakkað óskaplega til að fara í skóla, en hún vissi ekki að það þýddi að fara að heiman. Hún hafði aldrei áður gist annars staðar nema einu sinni í Reykjavík með mömmu og nokkrum sinnum farið í kaupstaðinn til læknis og í heimsókn til ömmu og afa.
Skólastjórinn
Hún hafði hitt manninn sem sagðist vera skólastjóri sumarið áður. Þá hafði hún verið með pabba sínum úti við hlöðu, og þá kom þarna maður sem kynnti sig sem skólastjórann við skólann sem hún átti að fara í. Hún vissi þó ekki hvað það þýddi að vera skólastjóri. Samt var eitthvað kunnuglegt við hann eins og þau þekktust þegar þau sáust fyrst. Kannski var hann bara svona við öll börn. Hann kallaði hana skessuna sína, og hún vissi að það var eitthvað gott, þó hún þekkti vel hvernig skessur voru í sögunum risastórar og áttu heima í fjöllunum.
Fyrsta kvöldið
Skólinn sjálfur var eins og höll í hennar augum. Hún hafði ekki gert sér grein fyrir að svona stór hús gætu verið til. Hún hafði aldrei komið þarna áður.
Þau gengu inn um aðaldyrnar. Pabbi hennar bar farangurinn, og skólastjórinn tók á móti þeim. Hann var alveg eins og þegar hún hitti hann fyrst föðurlegur og henni þótti strax vænt um hann.
Þau gengu upp stigana, fyrst á einn pall og svo annan, þar sem stelpugangurinn var. Skólastjórinn sýndi þeim herbergið sem hún átti að deila með þremur öðrum stelpum. Þar voru kojur fyrir fjóra, langborð og stólar við vegginn, fjórir fataskápar, vaskur fyrir tannburstann og snagar fyrir þvottapoka og handklæði.
Hún byrjaði að taka upp úr töskunni: sæng, kodda, föt. Hún lagði lakið á rúmið, breiddi sængina og lagði teppið yfir. Þá var komið að því að fara í mat. Pabbi var löngu farinn niður með skólastjóranum og hún fylgdi herbergisfélögunum í matsalinn á fyrstu hæð. Hún hafði aldrei séð þær áður, en henni líkaði strax vel við þær.
Matsalurinn
Fyrir utan matsalinn beið hópur af börnum. Hún hafði aldrei séð svona margt fólk saman komið. Þetta minnti hana á kindurnar heima hjá pabba, þegar þær biðu eftir að komast inn í fjárhúsið á veturna.
Að lokum opnaði einhver dyrnar, og krakkarnir mynduðu röð til að ganga inn. Þar tók hvert barn disk, glas og hnífapör og settist við langborð. Hún sat með herbergisfélögunum sínum.
Það voru fjögur langborð í matsalnum, og salurinn virtist risastór eins og allt í þessum skóla. Maturinn var borinn fram á bakka með vatnskönnum sem stóðu fyrir miðjum salnum. Það var kjöt í matinn eitthvað sem hún hafði aldrei séð eða fundið lykt af áður. Hún prófaði að smakka, en fannst það skrítið, seigt og feitt.
„Þetta er hrossakjöt,“ sagði einhver.
Hún hafði aldrei borðað hrossakjöt áður, og varla skilið orðið.
Hún reyndi þó að skera nokkra bita, en fannst það ekki gott. Það sem bjargaði öllu var grauturinn hann var kunnuglegur, þó ekki alveg eins og hjá mömmu.
Hvort pabbi kvaddi hana man hún ekki. Kannski fann hann hana ekki innan um allan þennan hóp.
Fyrsti dagurinn
Eftir hádegi fóru þau með úlpurnar og skóna niður í útiklefann í kjallaranum. Þar voru aðskildir klefar fyrir stelpur og stráka. Hún var ekki viss um að hún myndi rata þangað aftur eftir að hafa skilið fötin sín eftir.
Svo hófst fyrsti kennslutíminn. Kennslustofurnar voru á fyrstu hæð, rétt hjá matsalnum. Fyrir framan þær var anddyrið risastórt, eins og allt annað í skólanum. Þar voru kennarastofurnar og skrifborð skólastjórans.
Það var einmitt skólastjórinn sem kenndi þeim. Hún kunni að lesa og reikna eitthvað smá, og það kunni líka herbergisfélagi hennar sem sat við hliðina á henni. Þær sátu fremst í stelpnaröðinni og skólastjórinn kallaði þær skessurnar sínar, á meðan hann horfði á þær með föðurlegu augnaráði. Strákarnir sátu hinum megin í stofunni.
Efst á síðu
Ýmislegt
Heim
© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir hafa samband
|
|