|
Persónan og sálin
2. ágúst 2014
Á hverjum tíma í lífi mínu hef ég haft ákveðnar skoðanir á lífinu og tilverunni, hvernig hlutirnir ÁTTU að vera og hvernig þeir ÁTTU ekki að vera. Í gegnum tíðina hef ég oft haft stífar skoðanir og sumar hafa ekki vikið alveg ennþá þó að lífið sé stöðugt að gefa mér tækifæri á því að láta af þessum föstu skoðunum og formfestu og taka eftir því að allt er breytingum háð. Það eru þó búnar að vera breytingar og það oft miklar og eftir því sem lengra líður á lífsskeiðið þá sé ég að skoðanir og hugmyndir mínar hafa gjörbreyst og stundum breytast þær frá degi til dags.
Það að stíga út úr því sem manni finnst vera þægilegt og varanlegt fær mann oft til þess að skoða lífið út frá öðru sjónarhorni, sjá það í nýju ljósi. Ég hef alltaf haft ákveðnar væntingar um lífið og hvað tekur við næst og svo næst. Ákveðnir verðmiða voru settir á hlutina ef svo mætti segja, en gildi mitt sem persónu og gildi mitt sem sálar hafa ekki alltaf farið saman.
Persónan mín segir oft að eitt og annað sé óöruggt, ömurlegt, ég geri tómar vitleysur og sé ekki að standa mig í hinum veraldlega heimi á meðan sálin mín metur hlutina á annan hátt. Sálin sér stóru myndina, gleðina yfir því hvað hún hefur lært á hverju tímabili, hvernig þroski hefur aukist með ákveðnum upplifunum. Verðmætamat hennar er allt annað en hjá mér sem persónu og við höldum áfram að stöggla saman því að annað getur ekki verið án hins það er alltaf þetta stöðuga ósamkomulag þó að persónan gefi alltaf aðeins meira eftir af ákveðni sinni. Sálin fær meira að ráða för suma daga, innsæið og draumar fá traust og leiða mig áfram og ég veit að allt verður í stakast lagi.
Persónan ég hef mótast í þessu lífi allt frá barnæsku, hefur lært allskonar hegðun, hefur lært að eitt sé rétt og annað sé rangt, hefur sett sér takmarkanir á því hvað má og hvað má ekki, hvað sé ásættanlegt og hvað ekki, hún sér allt út frá rökhyggjunni. Persónan hefur ákveðnar takmarkanir af því sem hún hefur lært af umhverfi sínu af þeim sem hún hefur þroskast með á lífsbrautinni og af þeim gildum sem þjóðfélagið setur. Persónan situr inni í grámanum, horfir á lífið og alla litadýrðina út um gluggann og langar út og taka þátt en lætur það ekki alltaf eftir sér.
Sálin hefur aftur á móti engar takmarkanir, hún hoppar út í lífið full af gleði og eftirvæntingu hún sér engar hindranir í veginum, sér endalausar lausnir, víðáttur, margbreytilega, stórkostleg tækifæri margvídda, líf án takmarkana. Sálin sér stóru myndina, hún er óttalaus og vill að ég hendi mér í djúpu laugina, hoppi framaf og treysti því að ég geti flogið. Treysti því að lífið færi mér allt sem ég þarf ef ég næ að gefa eftir og sleppa því sem ég hef áður vitað og kunnað og finnst vera öruggt. Því sem ég hef lært í gegnum lífið og hefur orðið að ákveðinni hegðun, ákveðinni skoðun, ákveðinni væntingu.
Persónan er andstæð sálinni, persónan vill halda í hlutina á meðan sálin vill sleppa og treysta taka flugið og vita að allt er í stakasta lagi. Persónan vill leysa málin út frá sínu takmarkaða sjónarhorni á meðan sálin hefur yfirsýnina. Persónan vill halda áfram að vera í flugvélinni sama hvað hún hristist á meðan sálin vill stökkva vegna þess að hún veit að fallhlífin muni opnast einhver staðar á leiðinni og hún mun svífa mjúklega til jarðar. ~ JÞG
Ýmislegt
Heim
|
|