|
Keðjuverkandi áhrif orkulosunar
12. janúar 2013
Þegar ein manneskja losar út minningar fyrri lífa þá hefur það ekki bara áhrif í hennar lífi heldur á alla sem hafa verið henni samferða í lífinu og sérstaklega þá sem hafa verið áhrifavaldar í lífinu hennar.
Þegar einn losar hlekk í keðjunni þá hefur það keðjuverkandi áhrif á alla hina. Það að losa út fyrri líf er eins og þegar við rekjum upp eitthvað sem við höfum prjónað, eins og t.d. peysu, eða yfirhöfn. Þegar sá sem losar fyrra lífa minningarnar út byrjar að rekja peysuna upp, þá byrjar partur af peysu að rakna upp hjá öllum öðrum sem hafa verið með þessari manneskju í því lífi og það fer eftir því hversu mikill áhrifavaldur hver og einn hefur verið í þessu fyrra lífi sem er verið að losa hversu mikill partur af peysunni raknar upp hjá hverjum og einum.
Þegar fólk er að vinna að því að losa og leysa upp fyrri lífa minningar og áföll út um allan heim þá getum við séð það hversu gríðarlega mikil áhrif það hefur haft á allt mannkyn að fólk hafi verið og sé að gera þessa vinnu. Þannig hefur sú vinna sem einn gerir áhrif á fjölda manns í því að létta gömlu orkuna og orkumunstrin og það hefur ekki bara áhrif á manneskjur heldur líka á orku jarðarinnar.
Þegar orka eins erfiðs og þungs lífs hjá einum einstaklingi losnar þá getur það haft áhrif á þúsundir annarra einstaklinga, eða á alla sem voru honum samferða í lífinu. Þannig að hver og einn getur haft mikil áhrif í átt til bættrar líðanar hjá fjölda manns.
Þegar ein manneskja leysir upp fyrri lífa orku margra fyrri lífa þá hefur sú vinna gríðarleg áhrif á það fólk sem hefur staðið henni næst í þessum lífum vegna þess að oft erum við samferða sama fólkinu aftur og aftur í jarðvistunum. Allir sem eru að losa út fyrri lífa minningar eru því að vinna að því að heila fortíð mannkyns og þar með að létta á allri framtíðar orku í heiminum.
Áhrifin sem þetta hefur eru m.a. þau að allt sem hefur verið undir yfirborðinu og hefur ekki átt að koma fyrir augu almennings kemur upp, vegna þess að þegar yfirborðið byrjar að léttast og hreinsast hjá hverjum og einum þá byrjar allt draslið allt jukkið sem hefur setið undir þykku skáninni að koma upp. Þetta er svolítið eins og þegar þykk og hörð skán hafi sest efst ofan á vökvanum sem eru í tunnunni, þegar það byrjar að losna úr skáninni einn og einn biti þá byrjar skánin að þynnast smám saman og að lokum gefur hún sig og það sem liggur undir flýtur upp á yfirborðið. Skánin getur aldrei orðið eins þykk og hún var í upphafi þó að hún setjist til aftur vegna þess að það er búið að þynna hana og þannig heldur ferlið áfram á meðan allir þeir sem hafa verið svo hugrakkir að losa út hjá sér fyrri lífa minningar halda því áfram.
Hver og einn hefur áhrif á fjöldann og þegar við höfum öll náð að losa út allar fyrri lífa minningar sem tengjast ákveðnum atburðum í sögu mannkyns, s.s. kynferðismisnotkun þá þarf engin að spegla þann sársauka fyrir okkur lengur. En á meðan við höfum ekki losað þessa orku út úr minningabanka sálarinnar þá þurfa einhverjar sálir í líkama að spegla þann sársauka fyrir okkur vegna þess að við höfum ekki viljað horfast í augu við það að við höfum sjálf þennan sársauka innra með okkur. Nánast hver einasta sál sem hefur verið í líkama á jörðinni hefur einhvern tíman í einhverjum lífum upplifað kynferðismisnotkun þannig að hver og einn geymir þennan sársauka innra með sér þangað til hann, eða hún tekur ákvörðun um að losa hann út.
Við vitum að það sem við sjáum í fréttum hefur mjög misjöfn áhrif á okkur, við tökum fréttaefni misjafnlega nærri okkur og ef við fyndum engin viðbrögð innra með okkur við því sem við sjáum og heyrum t.d. í fréttum þá er ástæðan sú að það hefur engin speglunaráhrif fyrir okkur vegna þess að við höfum náð að losa þessar minningar út úr sálarminninu, eða þá að við höfum aldrei upplifað það sem sál í líkama á jörðinni. Við þekkjum þetta vel úr núverandi lífi, ef við höfum upplifað eitthvað sjálf sem hefur valdið okkur sársauka í lífinu og við sjáum einhvern annan ganga í gegnum það sama þá finnum við til með þeirri manneskju, ef við hefðu aldrei upplifað það sjálf þá myndi það ekki snerta okkur á nokkurn hátt.
Efst á síðu
Ýmislegt
Heim
© Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir joninath@viskaoggledi.is |
|